Tegundin

FCI-STAÐALL 13.10.2010

Uppruni - Króatía

Lýsing: Veiðihundur, heimilishundur og hentar til ýmisskonar þjálfunar

FCI-FLOKKUR: Tegundaflokkur nr.6. Sporhundar án vinnu.

 

Elstu heimildir um dalmatíuhunda eru myndir í málverkum og kirkjum frá 16 til 18 öld. Dalmatíuhundar voru m.a. á altarismálverkinu „ Madonna með Jesús og englum“ í kirkjunni „Gospa og Angela“ í bænum Veli Losinj í Króatíu allt aftur til 1600-1630 og auk þess í freskum í Zapstrog, í Dalmatíu í Króatíu. Það gefur vísbendingar um að hundartegundin eigi rætur sínar að rekja til austurhluta miðjarðarhafssvæðisins. Einkum hinu sögulega héraði Dalmatíu. Fyrstu skjalfestu lýsinguna á tegundinni má rekja til 18. aldar og var honum lýst sem Canis Dalmaticus í kirkjubókum frá 1719 eftir Peter Bakic biskup. Í bókinni Ágrip af Quadrupeds eftir Thomas Pennant var talað um að þessi tegund væri upprunalega frá Dalmatíu og var nefnd Dalmatian. Stuttu síðar í Almennri sögu Quadrupeds er vísað til kynsins sem dalmatian eða vagnahunds (Coach dog).

Tegundin var svo þróuð áfram í Englandi og fyrsti óopinberi staðallinn var kynntur af englendingnum Vero Shaw árið 1882. En árið 1890 var staðillinn gerður opinber með myndun fyrsta dalmatíuklúbbsins í Englandi. Hundinum var lýst sem varðhundi og selskapshundi og hafði verið notaður af hermönnum í Dalmatíu til að gæta landamæra. Allt til þessa dags hafa dalmatíuhundar haldið varðeðli sínu og er það eitt megineinkenni þeirra að gæta fjölskyldu sinnar. Þeir gelta yfirleitt ekki nema ástæða sé til og þá til viðvörunar. Þeir eru blíðir, vingarnlegir og tryggir þeim sem þeir þekkja en geta verið erfiðir við ókunnuga og tortryggnir. Dalmatíuhundar hafa ríkt veiðieðli og hægt er að þjálfa þá í veiði bæði til vatns og lands. Þeir hafa gott þefskyn og geta þefað uppi bráð og veitt smádýr. Þeir eru fljótir að læra og vegna þess og útlitsins hafa þeir að auki verið notaðir sem sirkushundar.

Það sem þeir eru þó einna þekktastir fyrir er tengingin við slökkvilið en þá tengingu má rekja til að þeir voru þjálfaðir til að hlaupa fyrir framan eða meðfram hestvögnum slökkviliðsmanna til að leiða hestanna og slökkviliðsmennina að eldum og auk þess voru þeir notaði af slökkviliðsmönnum til að gæta birgða meðan þeir voru við vinnu. Hundarnir hlupu undir kerruöxlunum og meðfram hestunum. í dag eru þeir haldnir sem gæludýr á mörgum slökkviliðsstöðvum víðs vegar um heim til að heiðurs upprunans.

Ertu að hugsa um að fá þér dalmatíuhvolp?

Sem hundaeigendur þá þurfum við að huga að mörgu. Það er mjög mikilvægt að skilja þá ábyrgð sem við berum á hundinum okkar og sem hundaeigendur í samfélaginu, til að tryggja að hundar og eigendur þeirra finnist þeir velkomnir í samfélaginu og til að tryggja gott viðhorf til hundamenningar. Sumar hundategundir eru ræktaðar eingöngu fyrir útlitið og aðrar fyrir vinnu. Dalmatíuhundurinn býður uppá þetta tvennt. Ef þú kærir þig ekki um að eyða mjög miklum tíma í að greiða og snyrta hundinn þinn, heldur frekar taka langar göngur í skóginum eða hjóla með hundinn, þá er dalmatíuhunduriinn fyrir þig. Dalmatíuhundurinn er ekki með mikla líkamslykt og hann slefar ekki mikið. Ef hugsað er vel um hundinn með góðu fæði þá er varla lykt af honum. Þeir eru snyrtilegir og þeir kunna að meta hreint umhverfi.

Dalmatíuhundurinn er ekki hundur fyrir sófakartöflur, það verður að hreyfa daglega hann og allt árið um kring. Það er auðvelt að kenna dalmatíuhundinum, en það verður að vera skemmtilegt. Þetta er ekki tegund eins og Border Collie sem gerir allt fyrir mann. Dalmatíuhundurinn er þrjóskur og honum verður að finnast æfingarnar þess virði að gera þær. Nammi og skemmtilegheit og tilbreyting þarf að fylgja þjálfun. Þeim finnst ekkert skemmtilegra en sýna eigendum sýnum ný trikk og er alltaf þakklátur fyrir þann tíma sem eigandinn ver með honum. Hann vill vera þáttakandi í lífinu, þetta er ekki tegund sem sættir sig við að vera bundinn útí garði í lengri tíma. Þeir eru eins og börn og vilja vita allt sem er að gerast og fylgjast með. Eftir göngutúra og vatnssopa getur hann legið í bælinu og kúrt rólegur það sem eftir er dags.