Við erum sex manna fjölskylda og búum í grafarvoginum. Árið 2016 ákvað móðirin á heimilinu að láta langþráðan draum rætast og flytja inn dalmatíuhund. Við hjónin höfðum rætt það að við vildum stóran hund, en ekki of stóran. Við vildum ekki þurfa að sinna mikilli feldhirðu og við vildum orkumikinn, líflegan og skemmtilegan hund. Við lásum okkur til um einkenni þessarar tegundar og fannst að þeir gætu hentað okkar heimili. Þeir eru orkumiklir, húsbóndahollir, þrjóskir, ástríkir og gáfaðir. Þeir eru auk þess fyndnir og geta breyst úr tignarlegum prúðum hundi yfir í trúð á sömu mínútunni. Síðan eru þeir blíðir og góðir fjölskylduhundar og miklir alhliðahundar í vinnu. Allt þetta heillaði okkur og fórum við á stúfana í byrjun árs 2016 að leita að ræktendum. Við fórum á ótalmargar síður og áttum í tölvupóstsamskiptum við ótal ræktendur. Þeir ræktendur sem við féllum á endandum fyrir voru hjón frá Króatíu sem hafa ræktað dalmatíuhunda frá árinu 1992 undir nafninu Lacrima Christi -kennel http://www.lacrima-christi.net/wprs/. Það var augljóst að þau höfðu gott orðspor á sér, og eru með fáa og góða hunda af miklum gæðum. Hundarnir þeirra hafa náð mjög langt á sýningum víðs vegar um heim og útlit þeirra höfðaði til okkar. Þeir eru með hunda með fallegan lit og gott jafnvægi milli styrks og tignarleiks. Við vorum heppin því þessir ræktendur voru með tvær góðar tíkur og voru til í að senda aðra þeirra til Íslands. Panda kom svo til okkar eftir langa bið í október. Hún kom í góðu jafnvægi og heilbrigð og við sáum strax að við höfðum eignast góðan hund og með henni hófst yndislegt ævintýri því hún veitir okkur endalausa gleði og hlýju. Við byrjuðum að stunda hundasýningar og gékk henni strax afar vel og safnaði strax stigum og titlum. Við sáum að þetta var tegund sem hentaði okkur vel og okkur langaði að rækta þessa tegund. Vorið 2018 kom svo rakkinn Bassi frá hinum heimsþekkta ( í dalmatíuheiminum) rússneska ræktunarnafni Iz Terleskoy Dubravi. Hann er ólíkur Pöndu í mörgu, hann veiðir ekki fugla né syndir eins og hún,  en er mikill karakter og afskaplega blíður og vill helst alltaf vera í keleríi við fjölskyldunni. Hann er mikill hlaupahundur og elskar að fara í hjólatúra og löng hlaup. Hann er auk þess duglegur í nosework og hefur mikla þörf fyrir að nota nefið. Hann er heimakær og vill helst bara kúra á kvöldin í stólnum sínum við kertaljós.